Fjármálastöðugleiki

Eitt meginhlutverka Seðlabanka Íslands er að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Þetta viðfangsefni hefur orðið æ umfangsmeira í starfsemi margra seðlabanka á undanförnum árum, enda talið nauðsynlegt í kjölfar þess að hömlum var létt af fjármagnshreyfingum á milli landa. Á alþjóðavettvangi hefur verið lögð vaxandi áhersla á virkt eftirlit með fjármálastarfsemi og yfirsýn yfir ýmsa áhættuþætti í fjármálakerfinu og í þjóðarbúskapnum í því skyni að leitast við að koma í veg fyrir alvarleg áföll. Áherslan á virkt og öruggt fjármálakerfi er í samræmi við það stefnumið seðlabanka flestra landa að stuðla að öryggi fjármálakerfisins, þ.e. að tryggja fjármálastöðugleika.

Bankinn leitast við að stuðla að öryggi fjármálakerfisins með því að fylgjast náið með þjóðhagslegu umhverfi þess, samskiptum fjármálastofnana og fjármagnsmarkaða, þróun fjármálakerfisins bæði hér á landi og erlendis, styrk þess og skilvirkni og áhrifum efnahagslegra þátta á kerfið í heild sinni. Einu sinni á ári birtir Seðlabankinn úttekt á fjármálastöðugleika á Íslandi í Fjármálastöðugleiki 2006 .

Þessi starfsemi er frábrugðin hefðbundnu fjármálaeftirliti að því leyti að í stað þess að fylgjast fyrst og fremst með stöðu einstakra lánastofnana er áhersla lögð á þætti sem kynnu að fela í sér hættu fyrir fjármálakerfið í heild sinni. Í því skyni að stuðla að traustum undirstöðum og heilbrigði fjármálakerfisins eiga Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið með sér náið samstarf.

Heilbrigði fjármálakerfisins er nauðsynleg forsenda hagstæðrar framvindu í efnahagsmálum og virkrar stefnu í peningamálum. Á undanförnum árum hafa fjármálaáföll riðið yfir víða um heim með víðtækum afleiðingum fyrir viðkomandi lönd og alþjóðlegt fjármálakerfi. Fjármálaáföll eru truflun eða skyndileg breyting á starfsemi fjármálafyrirtækja eða markaða sem hefur marktæk neikvæð áhrif á efnahagsþróun. Erfiðleikar í einu fjármálafyrirtæki, eða mikil verðbreyting á einum eignamarkaði, sem ekki hefur víðtæk áhrif á fjármálakerfið í heild og/eða á efnahagsstarfsemina, telst því ekki fjármálaáfall. Afdrifaríkustu fjármálaáföllin eru bankaáföll og gjaldeyrisáföll. Fjármálaáföll sem ógna fjármálakerfinu í heild kunna að krefjast sérstakra neyðaraðgerða af hálfu seðlabanka og/eða annarra opinberra aðila. Því er mikilvægt að treysta undirstöður fjármálakerfisins í hverju landi fyrir sig og að fylgjast með þáttum sem grafið gætu undan trúverðugleika þess.

Þegar sérstaklega stendur á og Seðlabankinn telur að fyrirgreiðsla hans sé nauðsynleg til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins eða að möguleiki sé á keðjuverkun vegna erfiðleika eins fjármálafyrirtækis getur hann gripið inn í til þess að fleyta viðkomandi fjármálafyrirtæki tímabundið yfir þá erfiðleika sem hún kann að hafa ratað í vegna lausafjárvanda. Ef í hlut á banki með höfuðstöðvar í einu Norðurlandanna og jafnframt starfsstöð í að minnsta kosti einu öðru norrænu ríki gæti reynt á samkomulag norrænu seðlabankanna þar að lútandi.
VerðbólgaMeira »
Vísitala neysluverðs, 12 mánaða breyting. Síðasta gildi: 8,6%
Verðbólgumarkmið er 2,5%
Vextir SeðlabankansMeira »
Vextir Seðlabankans
Stýrivextir 13,00%
Daglán 14,25%
Viðskiptareikngar innlánsstofnanna 11,50%
Gengi gjaldmiðlaMeira »
Gjaldmiðill 19.8.2006 Br. *
Bandaríkjadalur 69.64 0.65%
Sterlingspund 131.17 0.01%
Dönsk króna 11.97 0.33%
Evra 89.32 0.31%
* Breyting frá síðustu skráningu
Vísitala gengisskr.Meira »
Frá: 08.08.2006 Til: 18.08.2006
Síðasta gildi: 122,9028
Aðrir vextirMeira »
Aðrir vextir
Dráttarvextir frá 01.08.06 23,50%
18.08.06 REIBID REIBOR
O/N 13,800% 13,950%
S/W 12,700% 12,850%
1 M 12,700% 12,850%
3 M 13,000% 13,150%
1 Y 13,263% 13,413%


© 2005 Seðlabanki Íslands - Öll réttindi áskilin
Póstfang: Kalkofnsvegi 1, 150 Reykjavik - Netfang: sedlabanki@sedlabanki.is
Sími: 569 9600 - Bréfasími: 569 9605


Leturstærðir